Lög félagsins

Lög Íslendingafélagsins í Stokkhólmi

§ 1 Félagið

Félagið heitir ”Íslendingafélagið í Stokkhólmi”.
Heimili þess og varnarþing er Stór-Stokkhólmssvæðið.
Reikningsár félagsins er almanaksárið.

 

§ 2 Tilgangur félagsins

 1. Að sameina í eitt félag alla Íslendinga, maka þeirra og börn, sem búsett eru á félagssvæðinu.
 2. Að vinna að hagsmunum félagsmanna á sem bestan hátt
 3. Að koma fram fyrir Íslendinga á svæðinu eftir þörfum
 4. Að standa fyrir samkomum Íslendinga á svæðinu
 5. Að svara fyrirspurnum sem berast félaginu
 6. Að halda á lofti íslenskri tungu og menningu á svæðinu
 7. Að vinna að samvinnu Íslendinga á svæðinu (barna- og fjölskyldustarf í samvinnu við prest/kirkju, bjórkvöld ofl)

 

§ 3 Félagsmenn

Inngöngu í félagið hafa allir Íslendingar, búsettir á svæði félagsins, og aðrir sem áhuga hafa á starfsemi félagsins. Félagatal er óformlegt en stuðst er við póstlista félagsins.

 

§ 4 Félagsgjald

Félagsgjald er 150 SEK á ári per fjölskyldu og 100 SEK á ári per einstakling. Greiðsla gildir almanaksárið út.
Aðalfundur ákveður ársgjald fyrir næstkomandi ár. Greitt skal inn á PlusGiro reikning félagsins 403935-0.

 

§ 5 Fundir

Það sem ákveðið er á fundum félagsins hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins, innan þeirra marka, sem lög félagsins ákveða. Fjöldi atkvæða ráða úrslitum, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

§ 5a Stjórnarfundur
Formaður skal boða til minnst 2 stjórnarfunda árlega og þegar formanni þykir við þurfa. Auk þess er formanni skylt að halda fundi er minst 2 stjórnarmenn krefjast þess.

§ 5b Félagsfundur / Aðalfundur
Félagsfund skal halda þegar stjórn félagsins þykir við þurfa, eða þegar þess er krafist fyrir hönd minnst 1/5 hluta félagsmanna, einnig á að taka fram hvers vegna fundar er krafist. Kröfu um fund skal senda formanni félagsins. Aðalfund skal halda minnst 1x á ári.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

 1. Stjórn félagsins skýrir frá starfsemi þess og hag á liðnu ári.
 2. Stjórn félagsins leggur fram reikninga félagsins, ásamt skýrslu endurskoðenda.
 3. Lagabreytingar.
 4. Kosning stjórnar samkvæmt § 10.
 5. Kosning endurskoðenda félagsins
 6. Kosningar í nefndir og ráð
 7. Umræður og atkvæðagreiðsla um félagsgjald og önnur málefni

 

§ 6 Fundarboð

Fundarboð skal senda til allra félagsmanna á póstlista með minnst 3gja vikna fyrirvara ef um er að ræða aðalfund en 2gja vikna fyrirvara ef um er að ræða venjulegan félagsfund. Einnig skal auglýsa fundarhöld í þeim miðlum sem félagið hefur aðgang að (heimasíða og facebook hópur).
Í fundarboði skal stuttlega geta þeirra mála sem fyrir eiga að koma á fundinum. Málefni sem eigi er getið um í fundarboði, má þó taka fyrir og leiða til lykta á fundinum ef það er samþykkt með ¾ hluta greiddra atkvæða fundarmanna.

Fundur sem boðaður er eftir lögum Íslendingafélagsins í Stokkhólmi, er löglegur án tillits til hve margir sækja hann.

 

§ 7 Atkvæðagreiðsla

Hverjum fundi stýrir formaður félagsins eða í hans stað kjörinn fundarstjóri. Atkvæðagreiðsla og önnur meðferð mála á fundinum fer eftir því sem fundarstjóri ákveður. Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla fara fram þegar einhver fundarmanna krefst þess.

§ 8 Eignir félagsins

Sjóð félagsins skal varið á þann hátt sem stjórn félagsins ákveður, nema aðalfundur ákveði annað. Verði félagið leyst upp, skal sjóðum þess og öðrum eignum, ásamt skjölum afhent Sendiráði Íslands í Stokkhólmi til vörslu í 5 ár.
Verði stofnað nýtt Íslendingafélag innan þess tíma á svæðinu þá renna eignir félagsins til þess, ef ekki þá renna eignir félagsins til styrktar barnaspítala Astrid Lindgren.

 

§ 9 Skipun stjórnar

Stjórn félagsins skal skipuð Formanni, Ritara og Gjaldkera, ásamt minst 2 meðstjórnendum sem kosnir eru á aðalfundi til eins árs í senn. Ef ekki fæst fullskipuð stjórn á aðalfundi skal leitast við á komandi starfsári að skipa til stjórnar. Á næstkomandi aðalfundi má taka til umræðu hvort leggja eigi niður félagið enda fáist ekki aðilar til stjórnarstarfa. Svo þarf að gera með formlegum hætti á aðalfundi og skjölum, sjóði og öðru er varðar félagið koma fyrir (sjá § 9 ) á vísum stað.

Formaður félagsins skal koma fram fyrir hönd félagsins og samræma störf annara stjórnarmanna. Formaður ásamt gjaldkera félagsins eða öðrum þeim sem stjórnin ákveður, skulu hafa prókúru fyrir hönd félagsins. Prókúruhafar eru kosnir á 1:a stjórnarfundi eftir Aðalfund.

Ritari félagsins skal færa fundargerðarbækur félagsins og annast vörslu þeirra.

Gjaldkeri félagsins annast sjóð félagsins ásamt formanni. Gjaldkeri sér um greiðslu reikninga og innheimtur félagsgjalda ásamt ritara. Gjaldkera ber að skila ársreikningi félagsins til endurskoðenda félagsins.

 

§ 10 Prókúruhafar

Formaður ásamt gjaldkera félagsins eða öðrum þeim er stjórnin ákveður skulu hafa prókúru fyrir hönd félagsins.
Engir samningar fyrir félagið eru gildandi hafi ekki báðir prókúruhafar undirritað eða samþykkt svo sannað megi þá sameiginlega.

§ 11 Heimasíða félagsins

Heimasíða félagsins er www.islendingafelagid.se. Árgjaldið að hýsingu síðunnar er greidd af félaginu. Innihaldi er stýrt af stjórn félagsins. Auglýsingar fyrirtækja og annara hagsmunaaðila á síðunni lúta gjaldskrá sem ákveðin er af stjórn félagsins.  Smáauglýsingar á sérstöku svæði eru gjaldfrjálsar.

§ 12 Póstlisti félagsins

Á póstlista félagsins geta þess sem svo óska skráð sig. Lista þennan má ekki lána eða láta frá sér til annara aðila. Senda á út tilkynningar og aðrar ábendingar er varða félagsmenn beint. Forðast skal að senda auglýsingar og annað áreiti sem telst sem ”ruslpóstur” enda gerir slíkt lítið úr hlutverki póstlistans.
Fyrirtæki, einkaaðilar og aðrir hagsmunaaðilar sem styðja félagsstarfsemina með fjárhagslegum hætti, gjöfum eða slíku geta, ef stjórn þykir sérstök ástæða til, fengið óbeina auglýsingu með eðlilegum hætti á póstlistanum.
Tilkynningar frá sendiráðinu skal senda á póstlistann.

§ 13 Lagabreytingar

Lögum félagsins má ekki breyta nema á aðalfundi, enda hafi löglega veirð til hans boðað. Tillögur til lagabreytinga þurfa að hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund. Lagabreyting þarf samþykki minnst ¾ hluta fundarmanna til að öðlast gildi.

Þannig var samþykkt á Aðalfundi Íslendingafélagsins í Stokkhólmi febrúar 2009.

Warning: Division by zero in /customers/f/d/8/islendingafelagid.se/httpd.www/wp-includes/comment-template.php on line 1382