Til Stokkhólms

Upplýsingar fyrir Íslendinga á leið til Stokkhólms

Ef þú ert að íhuga að flytja til Stokkhólms er að mörgu að hyggja. Norræna upplýsingaþjónustan Halló Norðurlönd veitir góð ráð þeim sem er að flytja milli Norðurlandanna og öllum er ráðlagt að kynna sér vel upplýsingarnar sem er að finna á Hallo Norden.  Þar eru upplýsingar um leikskóla og skólamál, banka, kennitöluskráningu, fæðingarorlof og fleira og fleira.  Heilt haf af fróðleik !

Sendiráð Íslands í Stokkhólmi hefur að auki lagt út gagnlegar upplýsingar á sinn vef sem vert er að kynna sér: Sendiráð Íslands (velja ”íslenska” sem túngumál og ”Upplýsingar fyrir Íslendinga”)

Stokkhólmur er falleg borg og Stokkhólmsbúar eru þægilegir í umgengni og áhugasamir um Ísland. Þó getur reynst erfitt að komast inn fyrir skelina á þeim en það er oft einkenni stórborgara. Atvinnuleysi er talsvert í Stokkhólmi en betra en á mörgum öðrum stöðum í Svíþjóð.

Gagnlegar heimasíður geta verið arbetsformedlingen.se og monster.se.
Það er þó ekki alltaf hlaupið að því að komast í vinnu og gott er að þekkja einhvern sem þekkir einhvern.

Húsnæðismarkaðurinn er kannski ennþá erfiðari. Lítið er um leiguhúsnæði á lausu en oft hefur reynst vel að kaupa smáauglýsingu t.d. í Dagens Nyheter (www.dn.se) og útskýra þörf þína og hver þú ert.
Bostadsdirekt.se er síða sem sér um að miðla leiguhúsnæði.  Einnig er smáauglýsingavefurinn www.blocket.se en þar er að finna húsnæði og flest allt annað sem hugann girnist.  Á www.jagvillhabostad.nu er hægt að finna samansafnaðan lista yfir leigumiðlanir, einkaaðila og fleiri sem vert er að skoða tengt íbúðarleit.  Og á www.bjornsbytare.se er spjallborð (forum) með ýmsum upplýsingum og fróðleik um þau mismunandi hverfi, miðsvæðis og úthverfa, í Stokkhólmsborg.

Flestar íbúðir á markaðinum eru í “aðra hönd” (svokölluð framleiga) sem þýðir að leigt er af þeim einstaklingi sem er með gildan leigusamning við sjálfan eiganda íbúðarinnar. Þess konar samningar (framleigusamningar) eru oftast bara til eins til tveggja ára í senn og gott getur verið að athuga sérstaklega hvort leiguhafi sé með leyfi frá eiganda til að framleigja og þá til hversu langs tíma.

Að fá samning í ”fyrstu hönd” gæti krafist smá handavinnu og brennandi áhuga.  Hægt er að kaupa sér aðgang að heildarlista (www.hyresvard.se) yfir einkaaðila, fyrirtæki og kommúnur í Stór-Stokkhólmi sem hver hafa sína eigin biðröð að íbúðum þar sem fólk getur komist að eftir dúk, disk og hentugleika.  Oft þarf að skrá sig, gegnum netið eða með því að senda email eða fax með kynningu á fjölskyldustærð, tekjum heimilisfólks ofl.  Ekki á að þurfa að borga fyrir að standa í þess háttar röð nema hjá Stokkhólms Stads bostadskö (www.bostad.stockholm.se) sem kostar 250,- á ári.  Sú röð er feykivinsæl og oft sem börnum eru færð eilífðaráskrift að þeirri röð við fæðingu til þess að geta safnað sér ”biðraðardögum” þegar kemur að því að flytja að heiman….

Ef þú ert á Facebook þá er um að gera að vera með í grúppunni ”Íslendingar í Stokkhólmi” sem er hér: https: facebook.com/groups/35426219326/

Warning: Division by zero in /customers/f/d/8/islendingafelagid.se/httpd.www/wp-includes/comment-template.php on line 1382