Jólaball Íslendingafélagsins 2014

Jólaball Íslendingafélagsins verður haldið í safnaðarheimil Danderydskirkju, Angatyrvägen 39, Djursholm, sunnudaginn 7. desember kl. 14. xmas

Jólaballið verður með hefðbundnum hætti með dansi í kringum jólatréð, söng og jafnvel sveinkaheimsókn frá Íslandi! Að dansi loknum verður kaffihlaðborð í pálínustíl; allir gestir eru eindregið hvattir til þess að taka með sér eitthvað girnilegt framlag á hlaðborðið. Íslendingafélagið mun bjóða upp á drykkjarföng, brauð og létt álegg.

Til að standa undir kostnaði við salarleiguna mun verða hófstillt gjald inn á ballið, 150 sek fyrir fjölskyldu/ 50 kr fyrir einstakling. Minnum við ykkur sérstaklega á að koma með reiðufé. Happdrættismiði verður innifalin í verðinu fyrir hverja fjölskyldu og verður happdrættið haldið í lok ballsins.

Foreldrar athugið! Til að auðvelda það að sveinki gefi hverju barni gjöf sem hentar má koma með lítinn pakka kyrfilega merktum því barni sem á að fá pakkann. Í fatahenginu við innganginn á kirkjunni verður poki sveinka staðsettur þar til ballið hefst og þangað verður hægt að lauma pökkunum svo lítið beri á. bells

Hlökkum til að sjá ykkur í jólaskapi.
Kveðjur,
Stjórn íslendingafélagsins

 

Upplýsingar um dagskrá haustið 2014

Sæl Íslendingar,

Vonum að sem flestir hafi notið veðurblíðunnar hér í Svíþjóð í sumar.

Hér að neðan má sjá dagskrána fyrir starf Íslendingafélagsins í haust.
Dagskrá haustsins hefst á barnahittingi við 4H gården í Huvudsta, Solna . Við endurtökum Halloween ballið sem vakti gríðarlega mikla lukku síðasta haust og höldum að sjálfsögðu í hefðina með því að byrja desember á jólaballinu. Við höldum áfram samstarfi okkar við Íslensku kirkjuna í Svíþjóð með kirkjuskóla í október og nóvember og fáum þá heimsókn frá séra Ágústi, prestinum okkar frá Gautaborg. Mikil ánægja var með prjónakaffið síðasta vetur og verða því mánaðarleg prjónakaffi á dagskránni.

Við vonumst til að sjá sem flesta með okkur í vetur.

Ef þið hafið ábendingar/ athugasemdir þá biðjum við ykkur um að hafa samband á info [hjá] islendingafelagid.se

Einnig viljum við benda á Facebooksíðu félagsins, Íslendingar í Stokkhólmi, sem og heimasíðu félagsins, www.islendingafelagid.se

Vinsamlegast athugið að dagskráin er birt með fyrirvara um breytingar.

Dagskrá haustið 2014

Haustkveðjur,
stjórnin

17. júní fagnaður

Kæru Íslendingar í Stokkhólmi,

Áformað er að halda 17. júní fagnað fyrir Íslendinga í Stokkhólmi sunnudaginn 15. júní kl. 14:00.

Eins og undanfarin ár munum við hittast fyrir neðan kopartjöldin í Hagaparken og mælum við með því að allir taki með teppi til að sitja á.

Við verðum með andlitsmálningu fyrir börnin, förum í leiki og höfum það gaman saman í samveru annarra Íslendinga. Við verðum við með happdrætti þar sem vinningar verða m.a. íslenskt lambalæri og sælgæti. Íslenski fáninn

Við verðum með grill á staðnum og verðum með SS pylsur og drykki til sölu á góðu verði og til styrktar félaginu.

Með sumarkveðju, Stjórnin