17. Júní fögnuður þann 14. Júní

Þá styttist í þjóðhátíðarfögnuð Íslendingafélagsins þann 14. júní 2015!

Í ár fögnum við í fallegu Edsviken í Sollentuna. Sjá nánar um staðsetningu hér: http://www.edsvik.se/ Þar eru næg ókeypis bílastæði fyrir þá sem koma með bíl og einnig er auðvelt aðgengi með almenningssamgöngum, sjá nánar hér: HITTA TILL EDSVIKÍslenski fáninn

Við byrjum á skrúðgöngu kl 14:00 (við verðum með fána svo þið finnið okkur) gaman ef þið gætuð tekið með trommur, potta, skeiðar eða annað sniðugt. Við munum ganga saman frá Oxstallet og niður að flötinni þar sem hátíðarhöldin fara fram. Þá mun lítill nýstofnaður krakkasönghópur syngja þrjú lög.

Það verður andlitsmálning á staðnum og við seljum grillaðar SS pylsum, fána og íslenskt sælgæti (munið reiðufé). Við hvetjum alla til að taka með drykki en verðum einnig með drykki til sölu. Á staðnum er einnig veitingasala og aðstaða til að borða nesti inni fyrir þá sem vilja það.

Við höfðum hugsað okkur að fara í gömlu íslensku leikina (hlaup í skarðið, inn og út um gluggann, fram fram fylking…).

Rúsínan í pylsuendanum er víðavangshlaup þar sem keppt verður í 3 aldurflokkum (frá 5 ára) bæði í stúlkna og drengjaflokki.

Hlaðið nú picknick körfuna með kaffi, teppi og góðgæti og gerið ykkur glaðan dag með okkur kæru landar 🙂

Hvenær: 14. júní kl. 14:00

Hvar: Edsviken í Sollentuna http://www.edsvik.se/

Taka með: Reiðufé, teppi, picknick körfu

Endilega fylgist einnig með á Facebook – 17. júní fagnaður Íslendingafélagsins til að frá frekari upplýsingar og fylgjast með

Sjáumst öll sem eitt
Stjórnin

Um dagskrá Íslendingafélagsins

Sælir allir Íslendingar,

Við viljum byrja á að þakka fyrir skemmtilegt haust með barnahittingum, prjónahittingum og halloween- og jólaböllunum sem vöktu mikla lukku. Í byrjun febrúar hófum við vorstarfið með prjónahittingi þar sem nokkrar íslenskar konur mættu með prjónana og góða skapið. Hér að neðan má svo sjá dagskrána fyrir vorið 2014.

  • 8. mars – Fjölskyldumessa – Séra Ágúst kemur frá Gautaborg til að halda fjölskyldumessu fyrir Íslendinga í Stokkhólmi. Kl. 11 en staðsetningin verður auglýst fljótlega.
  • 15. mars – Prjónahittingur á Espressohouse á Birger Jarlsgatan.
  • 5. apríl – Fjölskyldumessa.
  • 23. apríl – Aðalfundur, staðsetning auglýst síðar. 26. apríl – Fjölskyldumessa.
  • 3. maí – Prjónahittingur á Espressohouse á Birger Jarlsgatan.
  • 24. maí – Barnahittingur úti – staðsetning auglýst síðar.
  • 15. júní – Þjóðhátíðarskemmtun

Vinsamlegast athugið að dagskráin er birt með fyrirvara um breytingar.

Nokkrar fyrirspurnir hafa borist okkur varðandi það hvort þorrablót/árshátíð verði haldin núna á vormánuðum. Eftir miklar vangaveltur og umræður höfum við tekið þá ákvörðun að ekki sé tímabært fyrir okkur að standa að svo stórum viðburði núna. Stefnum við að því að halda skemmtun í haust í staðinn. Ástæðurnar fyrir þessu er margþættar en vegur fjárhagsstaða félagsins og staða stjórnarinnar þar mest. Frá því að núverandi stjórn tók við félaginu fyrir ári síðan höfum við unnið að því að byggja upp starfið og styrkja fjárhagsstöðu félagsins, sem enn er ekki nægilega sterk til að geta staðið undir kostnaðarsamri skemmtun. Stjórnarmenn stýra félaginu í frítíma sínum og er staðan sú að nú eiga tvær í stjórninni von á barni á næstu mánuðum. Góð skipulagning á svona stórum viðburði krefst mikillar vinnu og getum við ekki ábyrgst það að geta sinnt því sem skildi eins og staðan er núna. Vonumst við til þess að allir skilji þessa afstöðu okkar og taki vel í þá ákvörðun að halda skemmtun á haustmánuðum, enda kominn tími á slíka skemmtun fyrir Íslendinga í Stokkhólmi!

Viljum við benda ykkur á Facebook síðu Íslendinga í Stokkhólmi þar sem við m.a. birtum áminningar fyrir viðburði og bætum við nauðsynlegum upplýsingum.

Endilega hafið samband við stjórnina á info@isledingafelagid.se ef þið hafið einhverjar ábendingar/athugasemdir.

Stjórnin