Hrekkjavökuball og kór

Hrekkjavökuball

Stjórn Íslendingafélagsins í Stokkhólmi auglýsir hér með að Hrekkjavökuball verður haldið í safnaðarheimili Flemingsbergskirkju í Huddinge. halloween

Við vonumst að sjálfsögðu til að sjá þar bæði litlar og stórar vampýrur, nornir, varúlfa og önnur furðufyrirbæri.
Við hvetjum að sjálfsögðu pabba og mömmu til að mæta líka uppáklædd, amk með hatt eða grímu svona uppá stemmninguna!

Við munum dansa saman og hafa það gaman.

Staður og stund: Laugardagurinn 18. október, kl. 15-17, Flemingsbergs Församling, Diagnosvägen 14-16, Flemingsberg/Huddinge.

Næg bílastæði eru á staðnum og einnig auðvelt að komast með almenningssamgöngum.

Miðaverð er 100 SEK fyrir fjölskyldu.

Viljum við endilega hvetja ykkur til að koma með veitingar á borðið í Pálínustíl.

Hlökkum til að sjá ykkur


Íslenski kórinn í Stokkhólmi

kór Í byrjun hausts tók Íslenski kórinn í Stokkhólmi til starfa. Æfingar eru haldnar á þriðjudögum kl. 18-20 í Bagarmossens Kyrka, 128 45 Stockholm. Fyrir þá sem hafa áhuga að mæta er ykkur bent á að skrá ykkur í Facebook hópinn “Íslenski kórinn í Stokkhólmi” þar sem tilkynningar eru birtar og hægt er að hafa samband við aðra kórmeðlimi.

Upplýsingar um dagskrá haustið 2014

Sæl Íslendingar,

Vonum að sem flestir hafi notið veðurblíðunnar hér í Svíþjóð í sumar.

Hér að neðan má sjá dagskrána fyrir starf Íslendingafélagsins í haust.
Dagskrá haustsins hefst á barnahittingi við 4H gården í Huvudsta, Solna . Við endurtökum Halloween ballið sem vakti gríðarlega mikla lukku síðasta haust og höldum að sjálfsögðu í hefðina með því að byrja desember á jólaballinu. Við höldum áfram samstarfi okkar við Íslensku kirkjuna í Svíþjóð með kirkjuskóla í október og nóvember og fáum þá heimsókn frá séra Ágústi, prestinum okkar frá Gautaborg. Mikil ánægja var með prjónakaffið síðasta vetur og verða því mánaðarleg prjónakaffi á dagskránni.

Við vonumst til að sjá sem flesta með okkur í vetur.

Ef þið hafið ábendingar/ athugasemdir þá biðjum við ykkur um að hafa samband á info [hjá] islendingafelagid.se

Einnig viljum við benda á Facebooksíðu félagsins, Íslendingar í Stokkhólmi, sem og heimasíðu félagsins, www.islendingafelagid.se

Vinsamlegast athugið að dagskráin er birt með fyrirvara um breytingar.

Dagskrá haustið 2014

Haustkveðjur,
stjórnin

Fermingarfræðsla Íslensku kirkjunnar í Svíþjóð

Fermingarfræðsla Íslensku kirkjunnar í Svíþjóð

Skráning í fermingarfræðslu fyrir næsta vetur stendur yfir.

Íslenska kirkjustarfið í Svíþjóð býður upp á fermingarfræðslu nú sem fyrr. Þátttakendur geta komið frá öllu landinu vegna þess að við hittumst tvisvar sinnum á fermingarmóti og þar fer mestur hluti kennslunnar fram. Fermingarundirbúningurinn hefst með fermingarmóti á Åh Stiftgård helgina 26.-28. sept. 2014. Hópurinn hittist á brautarstöðinni í Gautaborg um hádegi á föstudegi. Við förum með rútu til Åh stiftgård sem er 70 km fyrir norðan Gautaborg. Komum aftur til Gautaborgar um hádegi á sunnudegi og þaðan taka allir lest eða rútu heim.

Á fermingarmótinu gefst tækifæri til að kynnast og byrja fræðsluna af krafti. Á mótinu samtvinnum við nám, leik og skemmtilega samveru. Það koma einnig unglingar frá Noregi og Danmörku. Undanfarin ár höfum við verið með um 60 unglinga samtals og 15 fullorðna sem hafa umsjón með hópnum.

Fræðslan heldur áfram eftir fermingarmótið með því að unglingarnir sækja guðsþjónustur í heimabyggð og skila verkefnum með tölvupósti. Að vori hittist hópurinn að nýju á sama stað, helgina 8 – 10. maí 2015. Síðan er valfrjálst hvort fermingarathöfnin fari fram í Svíþjóð eða heima á Íslandi.

Þeir sem vilja vera með í fermingarfræðslu í vetur þurfa að skrá sig sem fyrst. Vinsamlega hafið samband á kirkjan@telia.com og þá fáið þið skráningarblað sent. Einnig er velkomið að leita frekari upplýsinga hjá undirrituðum í síma 0702863969.

Bestu kveðjur,
Ágúst Einarsson, prestur Íslendinga í Svíþjóð